17.3.2009 | 15:24
Lokablogg Kristínar Helgu
Á hverjum degi keyri ég uppí Borgarholtsskóla á bílnum mínum. Leiðin er greið en það eru engir vegatálmar við Elliðaárnar, ég er ekki stöðvuð af hermönnum af öðru þjóðerni sem líta á mig sem andstæðing sinn. Það er engin vegabréfsskoðun og ég er frjáls ferða minna í Reykjavík. Ég kem inní nýbyggðan hreinan skólann og tek upp nýju bækurnar mínar og fartölvuna. Að skólanum loknum kíki ég ef til vill á Hrafnistu, dvalarheimili fyrir aldraða en þar starfa ég með skóla. Ég þurfti engin sambönd né háskólagráðu til að fá að vinna þar og vinnutíminn minn er mjög sveigjanlegur. Ef það er svo gott veður þá er ég jafnvel bara á hlýrabolnum og reyni að ná lit, það er nefnilega enginn sem gefur mér illt auga fyrir það. Svo sef ég ljómandi vel í ameríska rúminu mínu á næturnar.
Þannig er mitt líf hér á Íslandi. Ef ég væri með palestínskt ríkisfang væri það allt annað.
Í gegnum tíðina hef ég ekki leitt hugann mikið að ástandinu fyrir utan landsteina Íslands, nema kannski aðeins til Barcelona og Kaupmannahafnar núna eru áherslurnar orðnar aðrar. Núna er ég hneyksluð á sjálfri mér fyrir að hafa kvartað svona mikið yfir þessum stöðumælasektum (tillitslausu grimmu stöðumælaverðirnir), tiltektinni í risastóra herberginu mínu og fyrst og fremst heimanáminu í skólanum sem ég borga varla neitt fyrir og undirbýr mig fyrir framtíðarnám. Vandræðalegt, ég veit.
Þessi ferð var sú ótrúlegasta reynsla sem ég hef upplifað hingað til. Allt annar menningarheimur og algjörlega frábrugðið því sem maður sér í fréttunum. Málið er nefnilega að fréttirnar hér á Íslandi frá þessu landsvæði sýnir aðeins það versta og blóðugasta sem hægt er að finna á hverjum tímapunkti en ekki venjulegur dagur í lífi fólks eða álíka hversdagslegt. Þar af leiðandi vitum við hér heima skuggalega lítið um líf og kjör palestínskra barna og fjölskyldna.
Þegar heim er komið stendur mér einna fastast í minningunni vopnin og áreitið sem maður varð fyrir. Það að geta ekki ferðast frjáls án þess að svara spurningum er afskaplega erfitt að venjast þegar maður kemur frá svona litlu, vopnalausu og óskiptu landi. Að alast upp í svona samfélagi ætti ekki að þurfa að leggja á nokkurt barn og sér maður fyrst þegar maður kemur þangað hversu nauðsynleg verkefni á borð við Sálrænan stuðning fyrir stríðshrjáð börn virkilega eru. Það er ólýsanlega góð tilfinning að heyra og finna fyrir því að þetta verkefni sé að skila góðum árangri, að við sem erum svona lítil þjóð getum gert eitthvað svona gott fyrir fólk sem hefur það verra. Það hvetur mann klárlega áfram og heldur uppi eldmóðnum svo fleiri góð verk verði unnin.
Þó mun ég einnig aldrei gleyma fólkinu sem við hittum. Fjölskyldurnar sem voru svo indælar og gestrisnar að hálfa er hellingur, sjálfboðaliðarnir sem leggja allt sitt líf í að hjálpa öðrum og bæta aðstæður og svo að lokum ungmennunum frá hinum Evrópulöndunum sem við upplifðum ferðina með.
Þetta er þó síður en svo endirinn á okkar verkefni en núna tekur við allt kynningarferlið. Við Gunnlaugur munum ferðast um menntaskóla og fara hvert þangað sem við erum velkomin að segja frá því sem við upplifðum og stöðu fólksins í landinu. Ég er bara rétt að byrja!
Að lokum vil ég þakka Mannréttindaskrifstofu Evrópusambandsins fyrir að gera þessa ferð mögulega fyrir okkur. Hún er mér ómetanleg.
Kristín Helga Magnúsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.