11.3.2009 | 12:37
Pistill eftir ferð til Palestínu
Heimferðin gekk mjög vel og við lentum á Keflavíkurflugvelli um miðjan sl. laugardag.
Nú þegar ég er kominn heim eftir viku ferð til Vesturbakkans í Palestínu leitar hugurinn út og fjölmargar minningar frá þessu ævintýri koma upp í kollinn.
Það að hafa fengið tækifæri til að ferðast um Palestínu, heimsækja verkefni palestínska Rauða hálfmánans í sálrænum stuðningi sem unnið er í samstafi við 4 evrópsk landsfélög Rauða krossins og Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins, koma inn á heimili palestínskrar fjölskyldu, ræða við ráðamenn í Qalqilya og fleira var ómetanlegt fyrir mig og gerði það að verkum að ferðin skilaði mjög miklu.
Við að heimsækja svæðið sá maður daglegt líf fjölskyldna sem fjölmiðlar segja manni sjaldan frá. Í fjölmiðlum er almennt ekki fjallað um fólkið sem á þann draum að fá að lifa lífi sínu í friði og spekt. Fólk sem dreymir um að lifa frjálst í landi sínu, hafa aðstöðu til að stunda nám og vinnu eins og önnur ungmenni. Ég fékk að kynnast þessu fólki, heyra sögur þeirra og drauma. Áberandi fannst mér hve börnin höfðu háleit og jákvæð markmið, öllum líkaði þeim vel í skólanum og sinntu sinni heimavinnu vel. Þau töluðu um áform sín um framhaldnám hvort sem draumurinn var að verða kennari, lögfræðingur eða hvað annað.
Ég fékk að kynnast því hversu jákvæðir og bjartsýnir Palestínumenn eru þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður í heimalandi þeirra. Ég fékk að njóta ótrúlegrar gestrisni frá heimamönnum en sama hvar maður kom var boðið upp á veitingar.
Fjölskyldan sem opnaði heimili sitt fyrir mér, ásamt fleiri gestum, 3 sinnum á einni viku sýndi ótrúlegt örlæti er hún deildi með okkur af öllu því sem hún átti, deildi með okkur gleði sinni og sorgum og ekki síst ótrúlega miklu magni af góðum mat. Fjölskyldan sem tók svo hlýlega á móti mér samanstóð af hjónum og börnum þeirra fimm, fjórum sonum og einni dóttur. Börnin eru á aldrinum 5 til 19 ára, en yngsti sonurinn átti einmitt 5 ára afmæli á meðan við dvöldum hjá þeim. Þau höfðu ekki mikla peninga milli handa enda hafði heimilisfaðirinn afar ótrygga vinnu. Þau létu það þó ekki stoppa sig í gestrisninni og báru fram kræsingar af góðum mat og sýndu að bjartsýni og hamingja geta verið til staðar þó svo að peninga og frelsi skorti.
Það að heimsækja skóla í landinu og sjá hve ótrúlega gott starf er unnið innan þeirra veggja, þrátt fyrir bága stöðu þeirra, var frábært og það að heyra skólastjórnendur, kennara, foreldra og aðra tala um það hve miklum árangri verkefnið í sálrænum stuðningi hefur skilað vakti hjá mér hlýja og þægilega tilfinningu. Það ólýsanlegt að finna að verkefni okkar, Rauða kross fólks, sé að skila svo miklum árangri og finna fyrir því mikla trausti sem heimamenn bera til Rauða krossins. Ég fann hvernig heimamenn tóku mér sem sjálfboðaliða Rauða krossins opnum örmum og það að keyra fram hjá barnahópi sem veifaði og hljóp brosandi á eftir bílnum einungis vegna þess að um bifreið frá Rauða krossinum var að ræða kveikti gleði í mínu litla hjarta en um leið von og hvatningu til enn betri verka í þágu þeirra sem minna mega sín.
Það að heimsækja Rauðu Davíðsstjörnuna í Ísrael og fá að kynnast því mikla samstarfi sem fram fer á milli þeirra og Rauða hálfmánans í Palestínu var ótrúlegt. Félögin tvö eiga í daglegum samskiptum sem ganga mjög vel þrátt fyrir erfitt ástand og miklar deilur þjóðanna á milli vel. Það var mjög ánægjulegt að sjá og heyra enn einu sinni að hinn einu sanni Rauða kross andi, grundvallarmarkmiðin sjö, lætur ekki stjórnast af pólitík, trú, deilum um landmæri eða öðru slíku.
Efst í huga mér fyrir utan gestrisnina og þær hlýju og persónulegu móttökur sem við fengum er það hve fólkið í landinu er sterkt en það stendur frammi fyrir aðstæðum daglega sem mér fannst allt að því óyfirstíganlegar í þá viku sem ég dvaldi þar ytra.
Minningar um ferðina, um landið sjálft og ekki síst fjölskylduna sem ég heimsótti mun lifa í huga mínum og hjarta um alla ævi. Það er einlæg von mín að ég fái tækifæri til að heimsækja landið sem allra fyrst á ný en ég vona innilega að þá verði aðstæður fólksins aðrar og betri.
Ég er glaður og hrærður en fyrst og fremst þakklátur fyrir það tækifæri að fá að heimsækja þetta fagra land og kynnast því góða fólki sem þar býr.
Nú við heimkomu tekur við kynningarstarf hjá okkur Kristínu Helgu en markmiðið með heimsókninni er að útbreiða þekkingu á ástandi og aðstæðum í Palestínu fyrir Íslendingum. Við erum nú þegar byrjuð að ræða við fjölmiðla en einnig munum við fara í menntaskóla, í ungmennastarf Rauða krossins og á fleiri staði.
- Gunnlaugur Bragi Björnsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.