5.3.2009 | 22:48
Samstarf án landamæra
Í dag vorum við í Jerúsalem en dagurinn hófst að vanda snemma.
Í morgun fórum við í skoðunarferð um gamla hluta Jerúsalemborgar, innan borgarmúranna. Við fórum í fylgd Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Skoðunarferðin tók um fjóra tíma og kynntumst við sögu borgarinnar síðustu 2000 árin og einnig eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948.
Eftir hádegishlé var ferðinni heitið í höfuðstöðvar Magen David Adom (Rauða Davíðsstjarnan, hér eftir nefnt MDA). Þegar við mættum á staðinn fengum við þær fréttir að þeir sem ætluðu að taka á móti okkur hefðu tafist vegna umferðatafa og vegatálma í vesturborginni sem lögreglan hafði sett upp eftir árás Palestínumanns, en hann keyrði traktor á lögreglubíl. Tveir lögreglumenn særðust en árásarmaðurinn lést af sárum sínum.
Hittum við sjálfboðaliðann Boaz en hann er nítján ára og tekur þátt í sjúkraflutningum auk þess að sinna sjálfboðnum störfum í blóðbankanum og á skrifstofu MDA. Það má segja að Boaz sé ofursjálfboðaliði, en hann eyðir 8 tímum á dag í sjálfboðin störf, 6-7 daga vikunnar!
MDA var stofnað af sjálfboðaliðum árið 1930 og er því 18 árum eldra en Ísraelsríki. Einkunnarorð landsfélagsins er mismunandi merki, sömu markmið og vísa þar með til samstarfsins við landsfélög Rauða hálfmánans og Rauða krossins.
MDA fékk aðild að Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans árið 2006 þegar Rauði kristallinn var samþykktur sem þriðja merki hreyfingarinnar.
Chaim Rafalovski sem er sviðsstjóri neyðarvarna hjá MDA ræddi við okkur um samstarf MDA og Palestínska Rauða hálfmánans (PRCS). Samskipti milli þeirra eru dagleg og ganga mjög vel. Að sögn Chaim voru þrjú bílslys í dag sem bæði félögin komu að sjúkraflutningum, þar sem PRCS flutti sjúklinga að eftirlitsstöðvum við landamæri og MDA tók við þeim og flutti á sjúkrahús í Ísrael. Önnur samstarfsverkefni eru m.a. þjálfun sjúkraflutningamanna og viðbrögð í neyðarvörnum auk þess sem fleiri verkefni eru í undirbúningi.
MDA veitir öllum þeim sem starfa að sjúkraflutningum áfallahjálp en þeir hyggjast einnig auka framboð á sálrænum stuðningi með því að þjálfa alla sína starfsmenn í sálrænum stuðningi, þjálfa upp nýja sjálfboðaliða og veita þjónustu allan sólarhringinn. Rauði kross Íslands er eitt af þeim landsfélögum sem styðja þetta verkefni.
Chaim sagði okkur frá því að MDA vinnur enn að sameiningu fjölskyldna eftir helförina. Þeir hjálpa skjólstæðingum að finna ættingja sína en tilfellin eru um 1000 á ári. Í síðustu viku leiddu þau saman systkini sem ekki höfðu hist í 65 ár en þá voru þau bæði um 10 ára aldur. Systkinin hittust í Belgíu og voru fagnaðarfundir þeirra teknir upp á myndband.
Við ræddum einnig við Rachel Cohen en hún starfar nú hjá MDA við útbreiðslu alþjóða mannúðarlaga en áður starfaði hún neyðarlínu MDA í Suður Ísrael. Hún lýsti því hvernig var að þurfa að sitja á skrifstofunni og gefa fyrirmæli og senda sjúkrabíla til að flytja slasaða Palestínumenn á meðan eldflaugar flugu yfir heimili hennar og hún vissi ekki um ástand barna sinna sem þar voru.
Einnig fengum við kynningu á sjúkrabílum MDA sem og aðstöðu neyðarlínu þeirra.
Að loknum löngum degi héldum við út að borða til að kveðja vini okkar frá Frakklandi sem halda heim snemma í fyrramálið. Við höldum heim snemma að morgni laugardags en Ítalirnir og Danirnir fara heim síðar sama dag. Við endum bloggið í dag á hópmynd fyrir framan einn af sjúkrabílum MDA.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.