1.3.2009 | 15:37
Fyrsti dagurinn í Ramallah
Sæl á ný
Nú erum við stödd í Ramallah en þangað héldum við eftir öryggiskynningu og kynningu á verkefnum Alþjóða Rauða krossins. Við keyrðum yfir frá Jerúsalem til Palestínu en ferðin tók um 45 mínútur.
Að sögn bílstjórans tók ferðin ekki nema 20 mínútur hér áður fyrr en það var áður en veggurinn milli Jerúsalem og Vestur bakkans var byggður en hann skiptir veginum sem liggur á milli Jerúsalem og Ramallah í tvennt, tvær akreinar hvoru megin veggjarins.
Þegar til Ramallah var komið, komum við okkur fyrir á herbergjunum okkar sem eru á Gistiheimili Rauða hálfmánans en gistiheimilið er staðsett á 8.-10. hæð skrifstofuhúss þeirra - en húsið er alls 11 hæðir! Síðan fengum við kynningu á húsakynnum og verkefnum þeirra.
Núna eigum við smá frjálsan tíma áður en við borðum kvöldmat og munum svo hvíla okkur í kvöld fyrir ferðalög næstu daga en á morgun munum við halda til Qalqilya þar sem við munum kynnast Palestínskum fjölskyldum, heimsækja grunnskóla og kynnast verkefnum Rauða kross Íslands, Danmerkur, Frakklands og Ítalíu en saman standa þessi landsfélög að sálrænum stuðningi fyrir stríðshrjáð börn hér í landi.
Lengra verður þetta ekki í bili, en endilega fylgist áfram með ferðum okkar næstu daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.