Lokablogg Kristínar Helgu

Á hverjum degi keyri ég uppí Borgarholtsskóla á bílnum mínum. Leiðin er greið en það eru engir vegatálmar við Elliðaárnar, ég er ekki stöðvuð af hermönnum af öðru þjóðerni sem líta á mig sem andstæðing sinn. Það er engin vegabréfsskoðun og ég er frjáls ferða minna í Reykjavík. Ég kem inní nýbyggðan hreinan skólann og tek upp nýju bækurnar mínar og fartölvuna. Að skólanum loknum kíki ég ef til vill á Hrafnistu, dvalarheimili fyrir aldraða en þar starfa ég með skóla. Ég þurfti engin sambönd né háskólagráðu til að fá að vinna þar og vinnutíminn minn er mjög sveigjanlegur. Ef það er svo gott veður þá er ég jafnvel bara á hlýrabolnum og reyni að ná lit, það er nefnilega enginn sem gefur mér illt auga fyrir það. Svo sef ég ljómandi vel í ameríska rúminu mínu á næturnar.

Þannig er mitt líf hér á Íslandi. Ef ég væri með palestínskt ríkisfang væri það allt annað.

Í gegnum tíðina hef ég ekki leitt hugann mikið að ástandinu fyrir utan landsteina Íslands, nema kannski aðeins til Barcelona og Kaupmannahafnar – núna eru áherslurnar orðnar aðrar. Núna er ég hneyksluð á sjálfri mér fyrir að hafa kvartað svona mikið yfir þessum stöðumælasektum (tillitslausu grimmu stöðumælaverðirnir), tiltektinni í risastóra herberginu mínu og fyrst og fremst heimanáminu í skólanum sem ég borga varla neitt fyrir og undirbýr mig fyrir framtíðarnám. Vandræðalegt, ég veit.

Þessi ferð var sú ótrúlegasta reynsla sem ég hef upplifað hingað til. Allt annar menningarheimur og algjörlega frábrugðið því sem maður sér í fréttunum. Málið er nefnilega að fréttirnar hér á Íslandi frá þessu landsvæði sýnir aðeins það versta og blóðugasta sem hægt er að finna á hverjum tímapunkti – en ekki venjulegur dagur í lífi fólks eða álíka hversdagslegt. Þar af leiðandi vitum við hér heima skuggalega lítið um líf og kjör palestínskra barna og fjölskyldna.

Þegar heim er komið stendur mér einna fastast í minningunni vopnin og áreitið sem maður varð fyrir. Það að geta ekki ferðast frjáls án þess að svara spurningum er afskaplega erfitt að venjast þegar maður kemur frá svona litlu, vopnalausu og óskiptu landi. Að alast upp í svona samfélagi ætti ekki að þurfa að leggja á nokkurt barn og sér maður fyrst þegar maður kemur þangað hversu nauðsynleg verkefni á borð við Sálrænan stuðning fyrir stríðshrjáð börn virkilega eru. Það er ólýsanlega góð tilfinning að heyra og finna fyrir því að þetta verkefni sé að skila góðum árangri, að við sem erum svona lítil þjóð getum gert eitthvað svona gott fyrir fólk sem hefur það verra. Það hvetur mann klárlega áfram og heldur uppi eldmóðnum svo fleiri góð verk verði unnin.

Þó mun ég einnig aldrei gleyma fólkinu sem við hittum. Fjölskyldurnar sem voru svo indælar og gestrisnar að hálfa er hellingur, sjálfboðaliðarnir sem leggja allt sitt líf í að hjálpa öðrum og bæta aðstæður og svo að lokum ungmennunum frá hinum Evrópulöndunum sem við upplifðum ferðina með.

Þetta er þó síður en svo endirinn á okkar verkefni en núna tekur við allt kynningarferlið. Við Gunnlaugur munum ferðast um menntaskóla og fara hvert þangað sem við erum velkomin að segja frá því sem við upplifðum og stöðu fólksins í landinu. Ég er bara rétt að byrja!

Að lokum vil ég þakka Mannréttindaskrifstofu Evrópusambandsins fyrir að gera þessa ferð mögulega fyrir okkur. Hún er mér ómetanleg.

Kristín Helga Magnúsdóttir

Kynning á aðstæðum í Palestínu

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir sýna myndir og spjalla um aðstæður í Palestínu í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25, í dag þriðjudag kl. 17.

Nánari upplýsingar um Rauðakrosshúsið má finna á  www.raudakrosshusid.is

 


Pistill eftir ferð til Palestínu

Heimferðin gekk mjög vel og við lentum á Keflavíkurflugvelli um miðjan sl. laugardag.

Nú þegar ég er kominn heim eftir viku ferð til Vesturbakkans í Palestínu leitar hugurinn út og fjölmargar minningar frá þessu ævintýri koma upp í kollinn.

Það að hafa fengið tækifæri til að ferðast um Palestínu, heimsækja verkefni palestínska Rauða hálfmánans í sálrænum stuðningi sem unnið er í samstafi við 4 evrópsk landsfélög Rauða krossins og Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins, koma inn á heimili palestínskrar fjölskyldu, ræða við ráðamenn í Qalqilya og fleira var ómetanlegt fyrir mig og gerði það að verkum að ferðin skilaði mjög miklu.

Við að heimsækja svæðið sá maður daglegt líf fjölskyldna sem fjölmiðlar segja manni sjaldan frá.   Í fjölmiðlum er almennt ekki fjallað um fólkið sem á þann draum að fá að lifa lífi sínu í friði og spekt. Fólk sem dreymir um að lifa frjálst í landi sínu, hafa aðstöðu til að stunda nám og vinnu eins og önnur ungmenni. Ég fékk að kynnast þessu fólki, heyra sögur þeirra og drauma. Áberandi fannst mér hve börnin höfðu háleit og jákvæð markmið, öllum líkaði þeim vel í skólanum og sinntu sinni heimavinnu vel. Þau töluðu um áform sín um framhaldnám hvort sem draumurinn var að verða kennari, lögfræðingur eða hvað annað.


Ég fékk að kynnast því hversu jákvæðir og bjartsýnir Palestínumenn eru þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður í heimalandi þeirra. Ég fékk að njóta ótrúlegrar gestrisni frá heimamönnum en sama hvar maður kom var boðið upp á veitingar.
Fjölskyldan sem opnaði heimili sitt fyrir mér, ásamt fleiri gestum, 3 sinnum á einni viku sýndi ótrúlegt örlæti er hún deildi með okkur af öllu því sem hún átti, deildi með okkur gleði sinni og sorgum og ekki síst ótrúlega miklu magni af góðum mat. Fjölskyldan sem tók svo hlýlega á móti mér samanstóð af hjónum og börnum þeirra fimm, fjórum sonum og einni dóttur. Börnin eru á aldrinum 5 til 19 ára, en yngsti sonurinn átti einmitt 5 ára afmæli á meðan við dvöldum hjá þeim. Þau höfðu ekki mikla peninga milli handa enda hafði heimilisfaðirinn afar ótrygga vinnu. Þau létu það þó ekki stoppa sig í gestrisninni og báru fram kræsingar af góðum mat og sýndu að bjartsýni og hamingja geta verið til staðar þó svo að peninga og frelsi skorti.


Það að heimsækja skóla í landinu og sjá hve ótrúlega gott starf er unnið innan þeirra veggja, þrátt fyrir bága stöðu þeirra, var frábært og það að heyra skólastjórnendur, kennara, foreldra og aðra tala um það hve miklum árangri verkefnið í sálrænum stuðningi hefur skilað vakti hjá mér hlýja og þægilega tilfinningu. Það ólýsanlegt að finna að verkefni okkar, Rauða kross fólks, sé að skila svo miklum árangri og finna fyrir því mikla trausti sem heimamenn bera til Rauða krossins. Ég fann hvernig heimamenn tóku mér sem sjálfboðaliða Rauða krossins opnum örmum og það að keyra fram hjá barnahópi sem veifaði og hljóp brosandi á eftir bílnum einungis vegna þess að um bifreið frá Rauða krossinum var að ræða kveikti gleði í mínu litla hjarta en um leið von og hvatningu til enn betri verka í þágu þeirra sem minna mega sín.

Það að heimsækja Rauðu Davíðsstjörnuna í Ísrael og fá að kynnast því mikla samstarfi sem fram fer á milli þeirra og Rauða hálfmánans í Palestínu var ótrúlegt. Félögin tvö eiga í daglegum samskiptum sem ganga mjög vel þrátt fyrir erfitt ástand og miklar deilur þjóðanna á milli vel. Það var mjög ánægjulegt að sjá og heyra enn einu sinni að hinn einu sanni Rauða kross andi, grundvallarmarkmiðin sjö, lætur ekki stjórnast af pólitík, trú, deilum um landmæri eða öðru slíku.
Efst í huga mér fyrir utan gestrisnina og þær hlýju og persónulegu móttökur sem við fengum er það hve fólkið í landinu er sterkt en það stendur frammi fyrir aðstæðum daglega sem mér fannst allt að því óyfirstíganlegar í þá viku sem ég dvaldi þar ytra.
Minningar um ferðina, um landið sjálft og ekki síst fjölskylduna sem ég heimsótti mun lifa í huga mínum og hjarta um alla ævi. Það er einlæg von mín að ég fái tækifæri til að heimsækja landið sem allra fyrst á ný en ég vona innilega að þá verði aðstæður fólksins aðrar og betri.

Ég er glaður og hrærður en fyrst og fremst þakklátur fyrir það tækifæri að fá að heimsækja þetta fagra land og kynnast því góða fólki sem þar býr.

Nú við heimkomu tekur við kynningarstarf hjá okkur Kristínu Helgu en markmiðið með heimsókninni er að útbreiða þekkingu á ástandi og aðstæðum í Palestínu fyrir Íslendingum. Við erum nú þegar byrjuð að ræða við fjölmiðla en einnig munum við fara í menntaskóla, í ungmennastarf Rauða krossins og á fleiri staði.

- Gunnlaugur Bragi Björnsson


Viðtöl og kveðjur

Í dag vorum við svo heppin að “sofa út”. Við lögðum ekki af stað fyrr en 07:30 og þá hófst tveggja tíma aksturinn til Qalqilya. Áður en við hittum fjölskyldurnar fórum við að skoða hluta múrsins sem hefur verið settur upp í kringum ákveðið svæði innan Qalqilya svæðisins. Við vorum svo heppin að fá frábært veður, sól og logn.

 

Eftir skoðunarferðina fengum við þær slæmu fréttir að afinn í fjölskyldunni sem ítölsku stelpurnar heimsóttu lést á þriðjudagskvöldið. Því héldum við öll til þeirrar fjölskyldu til að votta þeim samúð okkar. Þessi athöfn fer þannig fram að allir setjast inní stofuna og drekka einn kaffibolla en svo tekur við nokkurra mínútna þögn.

 

Þá hafði orðið þó nokkur seinkun á dagskránni en þá var klukkan orðin hálf tólf og bænastundin er alltaf á föstudögum klukkan tólf. Þá fórum við uppí aðstöðu PRCS (Palestínska Rauða hálfmánans) og biðum aðeins fram yfir tólf en þá héldum við til fjölskyldunnar. Við fórum til fjölskyldunnar sem við heimsóttum fyrst. Þar sem fjölskylda ítölsku stelpnanna vildi ekki láta mynda sig þá komu þær með okkur til “okkar” fjölskyldu. Fjölskyldan var að vana yndisleg. Þrátt fyrir að hafa fengið nýtt fólk í hvert skipti þá tóku þau okkur opnum örmum og buðu okkur uppá ekta ljúffengan palestínskan mat.

 

Þá tóku viðtölin við. Tekin voru einstaklingsviðtöl við okkur sem munu vera sýnd í heimildarmyndinni um ferðina sem mun verða tilbúin í byrjun apríl.

Eftir það tók við erfið kveðjustund þar sem við höfðum tengst sterkum böndum við fjölskylduna. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa verið svo heppin að kynnast þeim, fá að fræðast um þeirra daglega líf, tilfinningar og lífsskoðanir.

 

Að því loknu hittum við sjálfboðaliða frá PRCS og kynntumst aðeins meira starfsemi þeirra og spjölluðum um vonir og væntingar.

 

Þá tók við aftur við tveggja klukkustunda ferðalag til Jerúsalem. Áður en við borðuðum kvöldmat gengum við að grátmúrnum í Jerúsalem. Það var mjög tilfinningaríkt að fara þangað og fundum við öll orkuna þaðan. Föstudagur er heilagur dagur í augum gyðinga svo það voru nokkuð margir að biðja við múrinn – en við vorum það seint á ferð að stór hluti var farinn af stað heim á leið.

 

Síðasta kvöldmáltíðin með Rauða kross vinum okkar frá Danmörku og Ítalíu var svo í kvöld. Við leggjum af stað út á flugvöll klukkan hálf fjögur í nótt og komum því vonandi heim á klakann síðdegis á morgun ef allt gengur eftir óskum.

 

Myndir frá deginum í dag, sem og samantekt á ferðinni mun birtast hér á blogginu mjög fljótlega. Við þökkum öllum þeim sem hafa fylgst með okkur kærlega fyrir og hvetjum ykkur til að fylgjast með áfram.

 

Bestu kveðjur,

Gunnlaugur og Kristín.


Samstarf án landamæra

Í dag vorum við í Jerúsalem en dagurinn hófst að vanda snemma. 

Í morgun fórum við í skoðunarferð um gamla hluta Jerúsalemborgar, innan borgarmúranna. Við fórum í fylgd Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Skoðunarferðin tók um fjóra tíma og kynntumst við sögu borgarinnar síðustu 2000 árin og einnig eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

IMG 1537

 

Eftir hádegishlé var ferðinni heitið í höfuðstöðvar Magen David Adom (Rauða Davíðsstjarnan, hér eftir nefnt MDA). Þegar við mættum á staðinn fengum við þær fréttir að þeir sem ætluðu að taka á móti okkur hefðu tafist vegna umferðatafa og vegatálma í vesturborginni sem lögreglan hafði sett upp eftir árás Palestínumanns, en hann keyrði traktor á lögreglubíl. Tveir lögreglumenn særðust en árásarmaðurinn lést af sárum sínum.

Hittum við sjálfboðaliðann Boaz en hann er nítján ára og tekur þátt í sjúkraflutningum auk þess að sinna sjálfboðnum störfum í blóðbankanum og á skrifstofu MDA. Það má segja að Boaz sé ofursjálfboðaliði, en hann eyðir 8 tímum á dag í sjálfboðin störf, 6-7 daga vikunnar!

 

MDA var stofnað af sjálfboðaliðum árið 1930 og er því 18 árum eldra en Ísraelsríki. Einkunnarorð landsfélagsins er mismunandi merki, sömu markmið og vísa þar með til samstarfsins við landsfélög Rauða hálfmánans og Rauða krossins.

MDA fékk aðild að Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans árið 2006 þegar Rauði kristallinn var samþykktur sem þriðja merki hreyfingarinnar.

 

Chaim Rafalovski sem er sviðsstjóri neyðarvarna hjá MDA ræddi við okkur um samstarf MDA og Palestínska Rauða hálfmánans (PRCS). Samskipti milli þeirra eru dagleg og ganga mjög vel. Að sögn Chaim voru þrjú bílslys í dag sem bæði félögin komu að sjúkraflutningum, þar sem PRCS flutti sjúklinga að eftirlitsstöðvum við landamæri og MDA tók við þeim og flutti á sjúkrahús í Ísrael. Önnur samstarfsverkefni eru m.a. þjálfun sjúkraflutningamanna og viðbrögð í neyðarvörnum auk þess sem fleiri verkefni eru í undirbúningi.

 

MDA veitir öllum þeim sem starfa að sjúkraflutningum áfallahjálp en þeir hyggjast einnig auka framboð á sálrænum stuðningi með því að þjálfa alla sína starfsmenn í sálrænum stuðningi, þjálfa upp nýja sjálfboðaliða og veita þjónustu allan sólarhringinn. Rauði kross Íslands er eitt af þeim landsfélögum sem styðja þetta verkefni.

 

Chaim sagði okkur frá því að MDA vinnur enn að sameiningu fjölskyldna eftir helförina. Þeir hjálpa skjólstæðingum að finna ættingja sína en tilfellin eru um 1000 á ári. Í síðustu viku leiddu þau saman systkini sem ekki höfðu hist í 65 ár en þá voru þau bæði um 10 ára aldur. Systkinin hittust í Belgíu og voru fagnaðarfundir þeirra teknir upp á myndband.

 

Við ræddum einnig við Rachel Cohen en hún starfar nú hjá MDA við útbreiðslu alþjóða mannúðarlaga en áður starfaði hún neyðarlínu MDA í Suður Ísrael. Hún lýsti því hvernig var að þurfa að sitja á skrifstofunni og gefa fyrirmæli og senda sjúkrabíla til að flytja slasaða Palestínumenn á meðan eldflaugar flugu yfir heimili hennar og hún vissi ekki um ástand barna sinna sem þar voru.

Einnig fengum við kynningu á sjúkrabílum MDA sem og aðstöðu neyðarlínu þeirra.

Gunnlaugur ásamt sjúkraflutningamanni  Neyðarlínan

 

Að loknum löngum degi héldum við út að borða til að kveðja vini okkar frá Frakklandi sem halda heim snemma í fyrramálið. Við höldum heim snemma að morgni laugardags en Ítalirnir og Danirnir fara heim síðar sama dag. Við endum bloggið í dag á hópmynd fyrir framan einn af sjúkrabílum MDA.

Fyrir framan sjúkrabíl


Heimsókn til Hebron

Sæl á ný

Við eyddum deginum í dag í borginni Hebron, en Hebron er stærsta borgin í Palestínu en íbúarnir eru um 750 þúsund.

Ferðin til Hebron tók um eina klukkustund en við höfum sennilega aldrei minnst á það að við förum allra okkar ferða á tveimur bílum frá Alþjóða Rauðakrossinum, 10 manna Land Cruiser og öðrum 8 manna Renault.  Við, unga fólkið, erum yfirleit í Land Cruisernum ásamt Yahia, sem er bílstjórinn okkar, og dönskum kvikmyndatökumanni sem heitir Henrik.
Toyota Land Cruiser

Þegar við vorum komin til Hebron var tekið á móti okkur í húsnæði Palestínska hálfmánans í Hebron en formaður deildarinnar bauð okkur velkomin. Að því loknu tók við Catherine sem er bresk kona sem starfar fyrir Alþjóða Rauða krossinn á svæðinu, hún fór yfir aðstæður í Hebron og var erindi hennar mjög fróðleg.

Í Palestínu er mikið um svo kallaða settlers eða landnema og byggja þeir svokölluð settlements eða landnemahverfi. Árið 1968 voru 7 landnemahverfi í Hebron og hefur þeim fjölgað á síðan.
Borginni hefur nú verið skipt í tvennt H1 (80%) undir stjórn Ísralesmanna og H2 (20%) undir stjórn Palestínumanna en er undir svokölluðu öryggiseftirliti Ísraelsmanna. Frá og með árinu 1983 hafa lokanir í borginni verið tíðar en samkvæmt upplýsingum frá OCHA hafa Ísraelsmenn komið upp 76 lokunum í borginni, þar þekkjast þó einnig "flying check-points" sem geta birst hvar sem er, hvenær sem eru og því eru þær ekki inn í tölunni.  Lokanirnar eru götur eða svæði með "check-point" á hvorum enda. Fæðingar eru tíðar við lokanir enda ófrískar konur stoppaðar líkt og aðrir.
Á Bab Al Baladye Square var árið 1999 stór útimarkaður, margar búðir og mikil stemmning en frá og með árinu 2006 er þar aðeins autt svæði vegna lokana.
Catherine sagði okkar að Palestínumenn í borginni verða fyrir miklu, daglegu ofbeldi af hendi landnemanna. Ofbeldið er m.a. fólgið í grjótkasti, eyðileggingu, líkamlegu og andlegu ofbeldi. Dæmi eru um að landnemarnir láti til skara skríða og ráðist á hóp fólks sem fylgir líkkistu frá kirkju til grafar.
Árið 1983 var strætó- og leigubílakerfi borgarinnar loka. Lokað hefur verið fyrir umferð Palestínumanna í mörgum götum og frá og með árinu 2002 hefur þeim ekki verið heimilað keyra í Austurhluta gamla bæjarins.
Catherine fór yfir það hversvegna fólk þorir ekki að hringja á sjúkrabíl ef eitthvað kemur uppá. Rauði hálfmáninn sér um sjúkrabílana en þeir þurfa að fá leyfi áður en þeir fara inn á ákveðin svæði og því verða boðleiðirnar langar. Fólkið flytur því frekar slasaða í kerrum, á hestbaki eða með öðrum leiðum oft með slæmum afleiðingum.
Á undanförnum árum hefur efnahagsástand svæðisins versnað enda fáar búðir eftir en á árunum 2002-2003 var dagar með útgönubanni í borginni samtals 523.
Aðeins 14% íbúa hafa full störf en í borginni er atvinnuleysi 20%.

Þegar Catherine hafði lokið máli sínu tók skólastýra Qurtuba skólans til máls.  Skólinn hefur starfað frá árinu 1971 en hann er á milli 3 landnemahverfa.
Gata liggur milli skólans og eins landnemahverfisins en nemendum og starfsmönnum skólans hefur verið óheimilt að ganga á þeirri götu síðustu 10-11 ár og geta þeir því ekki notað tröppurnar að aðalinngangi skólans - en landnemar hafa lokað tröppunum með gaddavír.
Mikil fækkun hefur orðið á nemendum í skólanum en 2/3 nemenda hafa þurft á skipta um skóla vegna þess hve margar lokanir hafa verið settar upp á leið þeirra í skólann. Sökum lokana þurfa börnin m.a. að ganga yfir grafir og legsteina á leið sinni í skólann þurfa börnin. Þau þurfa oft að eyða löngum tíma við lokanir og málmleitarhlið. Ekki er leitað á fólki á þegar farið er frá H2 yfir á H1 enn oft er löng bið á þeirri leið, þ.e. oft líða nokkrar klukkustundir frá því að einstaklingur kemur að hliðinu þar til opnað er fyrir honum. Brugðið hefur verið á það ráð að byrja skólann mjög snemma og enda fyrr til að forðast það að börnin séu á leið í og úr skóla á sama tíma og börn landnemanna.
Qurtuba skólanum er boðið upp á sálrænan stuðning í samvinnu við Palestínska Rauða hálfmánann með stuðningi frá Rauða krossi Íslands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands.

Að þessari umfjöllun lokinni tókum við stefnuna í gamla bæinn þar sem við sáum þær búðir og útimarkaði sem enn eru gangandi. Við notuðum tækifærið og keyptum örlitla minjagripi á svæðinu en eftir að hafa gengið um miðbæinn og séð hvernig þurft hefur að girða yfir göngugötur til að koma í veg fyrir grjótkast úr blokkum landnemanna héldum við á fund með verslunarmönnum í húsnæði sálræna stuðningsins Hebron.
Fundinn sátu 3 verslunarmenn en allir hafa þeir misst viðskipti með einum eða öðrum hætti sökum lokana en sem dæmi m á nefna að götu með 1200 búðum hefur verið lokað. Að sögn þeirra eru verslunarsvæðin öll mjög lítil. Sögðust þeir verða varir við að Ísraelsmenn reyni að sjá til þess að ferðamenn kaupi ekki vörur af Palestínumönnum.
Þeir nefndu það að mjög langan tíma tekur að komast stuttar vegalengdir, dæmi eru um að til að komast leið sem áður nam nokkur hundruðum metum þurfti að fara margra kílómetra leið  vegna lokana en verðirnir taki sér einnig allt að eina og hálfa klukkustund í það að skoða skilríki einstakra aðila.

Eftir að spjallinu við verslunarmennina lauk var hópnum skipt upp til að heimsækja tvo skóla, við heimsóttum sama skólann ásamt Sólveigu og vinum okkar frá Ítalíu. Skólastjórinn tók á móti okkur við komuna og fór hann yfir helstu atriðin er við koma skólanum. En skólanum er boðið upp á sálrænan stuðning fyrir nemendur í 5. og 6. bekk. Hófst verkefnið í skólanum í október 2008.
Kennarar og foreldrar taka strax eftir breytingu og segja börnin jákvæðari og bjartsýnni. Verkefnið hjálparð börnunum að hleypa tilfinningum sínum út, losa um reiði og fl.
Skólinn er mjög nálægt landnemahverfi og skólastjórinn sagði okkur að nemendurnir væru mjög hræddir við landnemana og börn þeirra. Nemendurnir verða fyrir áreiti af þeirra hálfu á leið í skólann sem og eftir skóla og kvöldin. Víða eru klósett aðskilin íbúðarhúsunum og verða börnin oft fyrir áreiti á leiðinni á klósettið og hafa nokkur lent í því að vera numin á brott af landnemum. Landnemarnir hafa einnig ráðist á skólann með grjótkasti.
Gunnlaugur starfar í grunnskóla á Íslandi og því var áhugavert að sjá muninn á aðstæðum en skólinn virðst vinna mjög gott starf þrátt fyrir mikil þrengsli.
IMG 1944

Eftir að hafa rætt við skólastjórann litum við inn þar sem strákahópur var að vinna að sálræna stuðnings verkefninu ásamt 2 leiðbeinendum. Vegna þess hve skólinn er lítill hafa nokkrir nágrannar sem eiga laust pláss í húsum sínum lánað rými fyrir kennsluna. Í dag var verið að ræða um hræðslu og viðbrögð við hræðslu. Drengirnir sögðu frá hræðulegu atviki og lýstu því hvernig þeim leið og hvernig þeir brugðust við.

Að skólaheimsókninni lokinni sóttum við fund með borgaryfirvöldum sem vinna að uppbyggingu borgarinnar, en víða hafa verið unnin skemmdarverk á húsum sem verið er að laga. Við munum fjalla nánar um þann fund síðar.

Að þessu loknu fengum við okkur hádegismat en þá var klukkan orðin 16!
Á leiðinni til Jerúsalem  heimsóttum við verksmiðju í Hebron sem vinnu með gler og keramik og selur ýmsa fallega muni.

Lengra verður þetta ekki í bili, enda orðið framorðið hjá okkur og enn einn langur dagur framundan. 


Meira frá Qalqilya

Komið sæl!

Nú erum við enn einu sinni sest fyrir framan tölvuna að loknum löngum degi og ætlum að renna yfir það helsa sem gerst hefur í dag. Við tókum daginn snemma að vanda og vorum lögð af stað með allt okkar hafurtask frá Ramallah kl. rúmlega sjö í morgun en þá var ferðinni heitið til Qalqilya, annan daginn í röð.

Þegar til Qalqilya var komið tók við fundur með stjórnendum menntamálaráðuneytis Palestínu. Youssef, yfirmaður ráðuneytisins, fór yfir helstu atriði menntakerfi landsins og hvernig kennararnir þeirra þjást vegna ástandsins í landinu. Hann fór einnig yfir samvinnu menntamálaráðuneytisins og Palestínska Rauða hálfmánans og Rauða kross Íslands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands. Sagði hann að samstarfið gengi mjög vel og hafi skilað miklum árangri en verkefni okkar sem byggir á sálrænum stuðningi er nú komið í 53 skóla. Aukin einbeiting, betri árangur í námi, markvissari kennsla og bætt samskipti er meðal þess sem Youssef talaði um sem atriði sem sálræni stuðningurinn hefur haft í för með sér. Hann sagði okkur einnig að í Palestínu er 72 skólar, 10 einkaskólar, 50 leikskólar og 1600 kennarar.

Eftir fundinn í ráðuneytinu var komið að því að skipta okkur niður í hópa til að heimsækja grunnskóla á svæðinu og þar með kynna okkur verkefnið um sálræna stuðninginn sem að mestu leyti fer fram inni í skólunum sjálfum. Það vill hinsvegar þannig til að kennarar hér í landi hafa boðað til verkfallsaðgerða og hafa verið í verkfalli þá tvo virku daga sem af eru þessari viku. Menntamálaráðuneytið hefur því miður ekki haft pening til að greiða kennurunum laun undanfarið og því hafa þeir brugðið á þetta ráð. Börnunum var hinsvegar boðið að koma og sækja sálræna stuðninginn eins og um venjulegan skóaldag væri að ræða og komu börn í 2 af þeim 3 skólum sem við heimsóttu. Við fórum í sitthvorn skólann en báðir eru þeir staðsettir í Qalqilya.

Skólinn sem Gunnlaugur heimsótti telur um 700 nemendur í 4.-7. bekk. Við skólann starfa 30 kennarar. Heimsóknin í skólann hófst með spjalli við skólastjórann, nokkra kennara og Margaret sem er yfir sálræna stuðningnum í skólanum en 120 börn úr 5. bekk skólans taka þátt í verkefninu undir handleiðslu 3 leiðbeinenda. Verkefnið fer fram í 6 hópum og sér 1 kennari um 2 hópa.
Kennararnir nefndu bætta hegðun, minni slagsmál og aukna kurteisi sem dæmi um það sem verkefnið hefur haft í för með sér. Auk þess nefndu þeir að börnunum gengi betur í náminu en áður, þeir sögðu samskiptin hafa batnað.
Verkefnið saman stendur af 20 vinnuhópum innan kennslustofunnar. Boðið er upp á 10 vinnuhópa á hvorri önn skólaársins. Hver vinnuhópur hefur sitt markmið, t.d. að byggja traust og efla hópinn, ræða um ofbeldi og ótta, vinna með samskipti innan og utan skólans og svo framvegis. Hver vinnuhópur stendur í 1 til 1 og 1/2 klst. á dag.
Að loknu spjalli á skrifstofu skólastjórans fórum við og litum inn hjá drengjahóp sem komið hafði í skólann til að sækja verkefnið. Hópurinn var að borða nesti þegar við komum og fengum við okkur bita með þeim. Síðan fórum við í nokkra leiki saman. Að því loknu færði Gunnlaugur skólanum vaxliti frá Unni Hjaltadóttur skólasafnskennara í Hlíðaskóla.
IMG 1836
Margaret tekur við gjöfinni sem hún sagði að myndi koma að góðum notum.

Engin börn sóttu skólann sem Kristín heimsótti. Hún sat þó fund með skólastjóranum, en 80 börn úr skólanum sækja sálrænan stuðning.

Verkefninu er ætlað að láta börnunum líða betur en það að vera umlukin stríði, vera lokuð i eigin borg og lifa við sífelldan ótta hefur augljóslega djúp sálræn áhrif á þau. Þegar þau hittast fara þau oft í leiki sem ætlað er að hleypa út tilfinningum þeirra en í leikjunum hefur komið fram að börnin eru oft reið og ofbeldisfull.

Eftir að hóparnir höfðu heimsótt skólana var okkur öllum skipt upp í nýja hópa til að heimsækja fjölskyldurnar þrjár. Gunnlaugur og Sólveig heimsóttu sömu fjölskyldu og í gær, ásamt Thoby frá Danmörku og  Jósef og Oliver frá Frakklandi. Kristín heimsótti hinsvegar aðra fjölskyldu ásamt Semine frá Danmörku. Við munum segja nánar frá heimsóknum síðar en nú er orðið ansi framorðið hér hjá okkur við ætlum að reyna að setja inn sem flestar myndir fyrir svefninn.

Eftir heimsóknir til fjölskyldnanna má segja að við höfum falið okkur í dýragarði borgarinnar en í dag komu her Ísraelsmanna inn í borgina og skutu þar nokkrum skotum. Dýragarðurinn í borginni er talinn nokkuð öruggur og því vorum við aldrei í neinni hættu. Alþjóða Rauða krossinn fylgdist með ferðum okkar og sá til þess að við kæmumst auðveldlega út úr borginni eftir heimsókn okkar í dýragarðinn. En garðurinn er mjög fallegur og þar eru fjölmörg dýr. Einnig eru þar þrjú ólík söfn.

Ferðin frá Qalqilya til Jerúsalem, við fórum í gegnum 3 "check-point" en þurfum aðeins að sýna vegabréfin okkar í einu þeirra - en Rauði krossinn nýtur trausts hér og þurfa þeir sem ferðast undir þeirra merkjum yfirleitt ekki að óttast um að vera látnir dúsa lengi á slíkum skoðunarstöðvum.

Nú er þessi dagur á enda runninn og lengra verður þetta ekki í kvöld. En við bendum á að í dag birtist viðtal við okkur í Morgunblaðinu á bls. 17. Við leyfum því einnig að fljóta með hér að neðan. Í dag birtist einnig grein um heimsókn okkar til Palestínu í þekktu arabísku blaði sem kallast Jerúsalem. Sú grein er á arabísku, en við munum reyna að birta hana hér síðar.

 

mbl

 


Mánudagur í Qalaqilya

Við ætlum að byrja færsluna í dag á smá viðbótum við fyrri blogg.
Nú höfum við fengið allt sem okkur vantaði; taskan hennar Sólveigar skilaði sér í gær og Frakkarnir tveir sem ekki komu á réttum tíma komu á hótelið í Jerúsalem uppúr miðnætti aðfaranótt sunnudagsins eftir 7 klst. yfirheyrslur á flugvellinum.

Dagurinn í dag hefur verið sá viðburðaríkasti hingað til. Hann hófst kl. 05:00 með sturtu og tilheyrandi líkamssnyrtingum. Á slaginu kl. 06.31 hófst ferð okkar til Qalaqilya en akstur þangað tekur um eina og hálfa klukkustund. Á leiðinni fórum við um tvo "check-point" sem eru skoðunarstöðvar Ísraelsmanna og hefta mjög frelsi Palestínumanna. Þeir gerðu engar athugasemdir við ferðir okkar og komumst við áfram án þess að sýna vegabréf eða önnur skilríki.
Þegar til Qalaqilya  var komið fórum við beint á fund með sýslumanni (governor) Qalaqilya svæðisins en borgin Qalaqilya er sú þéttbýlasta á Vesturbakkanum (þar búa 50þúsund íbúar á 4,2 ferkílómetra svæði). Á fundinum fór sýslumaðurinn yfir ástandið í borginni og helstu vandamál sem íbúar og stjórnvöld á svæðinu standa frammi fyrir. Hann fór m.a. yfir hvernig veggurinn milli Ísraels og Vesturbakkans liggur og kynnti okkur áform Ísraelsmanna um áframhaldandi uppbyggingu hans með tilheyrandi landsskerðingu á kostnað Palestínumanna. Fundurinn var mjög fróðlegur og varpaði nokkru ljósi á aðstæður íbúanna.

Því næst tók við sambærilegur fundur með borgarstjóra Qalaqilya en hann fór nánar yfir aðstæður ungs fólks í borginni. Í Qalaqilya er enginn almenningsgarður en þar er þó einn dýragarður. Er það eini staðurinn sem fjölskyldur geta sótt. En sökum landleysis er ekki hægt að byggja upp fleiri slíka garða. Ekkert æskulýðsstarf er í borginni og lítið við að vera fyrir ungt fólk, því er dýragarðurinn einnig vel sóttur af yngri kynslóðinni.

Að fundahaldi loknu var komið að því að skoða áðurnefndan múr sem skilur Vesturbakkann að frá Ísrael. Þar sáum við akur sem var á kafi í vatni en veggurinn hindrar eðlilegt flæði vatnsins. Þar hittum við einnig eiganda landsvæðisins en hann sagði okkur að við byggingu veggjarins árið 2005 hafi mjög stór hluti lands hans lent hinu megin múrsins og því getur hann ekki nýtt landsvæði sitt sem skildi.

Að þessu loknu var klukkan orðin hálf ellefu og tímabært að skipta hópnum niður á fjölskyldur. Upphaflega áttu þátttakendur frá hverju landi að fá eina fjölskyldu en á síðustu stundu hætti ein fjölskyldan við og því voru þær þrjár í stað fjögurra. Hópnum var því skipt í þrjá minni hópa. Við Íslendingarnir ásamt Jósef frá Frakklandi heimsóttum Palestínska fjölskyldu sem samanstendur af hjónum, 4 sonum þeirra og einni dóttur. Um kl. ellefu vorum við komin á heimili fjölskyldunnar sem var lítil, en snotur tveggja svefnherbergja íbúð í fjölbýlishúsi. Börnin eru á aldrinum 4 - 18 ára, en ellefu ára sonur hjónanna sæki sálrænan stuðning hjá Palestínska Rauða hálfmánanum í Qalaqilya  en það verkefni er stutt af íslenska, danska, franska og ítalska Rauða krossinum og er ástæða fyrir heimsókn okkar hingað. Börnin 5 sofa í sama herbergi en hjónin hafa eigið svefnherbergi. Við ræddum við þau ýmis mál, m.a. stöðu fjölskyldunnar, upplifun þeirra á ástandinu, skoðun þeirra á sálrænum stuðningi Rauða hálfmánans og fleira. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er fjölskyldan æðrulaus og mjög bjartsýn en aðspurð sögðust þau hvergi vilja búa annarsstaðar en í Palestínu - það eina sem þau biðja um er frelsi til að lifa sínu lífi án afskipta Ísraelsmanna.
Hjónin sögðu að ellefu ára sonur þeirra hafi tekið miklum framförum eftir að hann tók að sækja sálrænan stuðning fyrir stríðshrjáð börn. Þau sögðu hugsanir hans mun jákvæðar og að hann væri á heildina litið bjartsýnni á framtíðina en áður.
Heimilisfaðirinn er án atvinnu og því hefur fjölskyldan litla peninga á milli handanna en mikið atvinnuleysi er í borginni. Ástæður þess má oftar en ekki rekja til þess hve mikið af landssvæðum Palestínumanna hefur lent Ísraelsmegin við múrinn og einnig til þeirrar staðreyndar að sökum heftra samgangna og mikillar umferðastjórnunar inn og út úr borginni geta íbúar Qalaqilya ekki sótt vinnu í öðrum borgum Palestínu.
Fjölskyldan bauð okkur upp á ekta mat að hætti Palestínumanna, kjúkling, hrísgrjón, fisk, asíur og að sjálfsögðu brauðið þeirra sem við Íslendingarnir hámum í okkur með hummus eða hverju öðru sem býðst!
Samverustund dagsins með fjölskyldunni stóð í 4 klst. og fór að mestu í að kynnast og ræða um þeirra aðstæður. Við munum einnig hitta fjölskylduna á morgun, þriðjudag og n.k. föstudag.

Áður en haldið var aftur til Ramallah hittum við sjálfboðliða Palestínska Rauða hálfmánans í Qalaqilya í húsnæði sem verkefnið sálrænn stuðningur hefur yfir að ráða. Þau fóru m.a. yfir þeirra verkefni innan hreyfingarinnar og fleira. Þau fengu einnig stutta kynningu á verkefnum dönsku og ítölsku ungmennahreyfingarinnar. Að því loknu tók við eins og hálfs klukkustundar ferðalag til Ramallah.

Þegar þangað var komið tók við stutt viðtal vegna heimildarmyndarinnar sem gerð er um ferðina og að því loknu veittum við blaðamanni Morgunblaðsins viðtal gegnum síma. Viðtalið mun að öllum líkindum birtast í Morgunblaðinu á morgun svo við hvetjum ykkur til að fylgjast með.

Klukkan 19 tók við formleg móttaka Palestínska Rauða hálfmánans í sal þeirra á 8. hæð hússins en þar buðu þeir upp meira af hefðbundnum Palestínskum mat sem að sjálfsögðu innihélt brauð og hummus við mikinn fögnuð okkar.

Eins og sjá má hefur þetta verið langur og viðburðaríkur dagur. Nú er klukkan orðin 20 mínútur í ellefu og því tímabært að búa sig í háttin. Við munum setja inn sem mest af myndum sem allra fyrst!


Fyrsti dagurinn í Ramallah

Sæl á ný

Nú erum við stödd í Ramallah en þangað héldum við eftir öryggiskynningu og kynningu á verkefnum Alþjóða Rauða krossins. Við keyrðum yfir frá Jerúsalem til Palestínu en ferðin tók um 45 mínútur.
Að sögn bílstjórans tók ferðin ekki nema 20 mínútur hér áður fyrr en það var áður en veggurinn milli Jerúsalem og Vestur bakkans var byggður en hann skiptir veginum sem liggur á milli Jerúsalem og Ramallah í tvennt, tvær akreinar hvoru megin veggjarins.

Þegar  til Ramallah var komið, komum við okkur fyrir á herbergjunum okkar sem eru á Gistiheimili Rauða hálfmánans en gistiheimilið er staðsett á 8.-10. hæð skrifstofuhúss þeirra - en húsið er alls 11 hæðir! Síðan fengum við kynningu á húsakynnum og verkefnum þeirra.

Núna eigum við smá frjálsan tíma áður en við borðum kvöldmat og munum svo hvíla okkur í kvöld fyrir ferðalög næstu daga en á morgun munum við halda til Qalqilya þar sem við munum kynnast Palestínskum fjölskyldum, heimsækja grunnskóla og kynnast verkefnum Rauða kross Íslands, Danmerkur, Frakklands og Ítalíu en saman standa þessi landsfélög að sálrænum stuðningi fyrir stríðshrjáð börn hér í landi.

Lengra verður þetta ekki í bili, en endilega fylgist áfram með ferðum okkar næstu daga.


Fyrsti dagurinn í Jerúsalem að kvöldi kominn

Jæja, hér í Jerúsalem er klukkan orðin hálf tólf og fyrsti dagurinn okkar hér úti því að kvöldi kominn.

Eftir að hafa lagt okkur eftir langt ferðalag fengum við heimsókn frá Pálínu Ásgeirsdóttur en hún starfar hjá Alþjóða Rauða krossinum hér ytra. Hún bauð okkur í bíltúr og sýndi okkur helstu hluta Jerúsalemborgar. Borgin hefur mikinn sjarma en á mörgum stöðum má sjá mikið rusl, illa farin hús, brennda bíla og veggjakrot.

Um kvöldmatarleytið hittum við kollega okkar frá Danmörku og Ítalíu en þau höfðu komið hingað síðdegis. Við settumst með þeim að snæðingi og kynntumst hvert öðru. Dönskukunnátta okkar hefur loksins komið að góðu gagni.
Þátttakendurnir frá Frakklandi lentu í Tel Aviv um klukkan 17 í dag en þeir voru því miður stoppaðir á flugvellinum og teknir í yfirheyrslur. Einn þeirra kom hingað á hótelið uppúr kl. 22 en þegar þetta er skrifað eru hinir tveir enn ókomnir, þeir eru þó samkvæmt okkar heimildum á leiðinni.

Veðrið er nokkuð líkt því sem við þekkjum á Íslandi. Þegar við lentum í Tel Aviv var rok, rigning og þrumuveður en nú hefur stytt upp að mestu. Þessa stundina er rok og ansi kalt.

Í fyrramálið munum við mæta á öryggiskynningu á vegum Alþjóða Rauða krossins hér í Jerúsalem en að henni lokinni munum við halda til Ramallah í Palestínu. Næstu þremur dögum munum við eyða í Ramallah og Qalqilya en við munum gista báðar næturnar á Gistihúsi Rauða hálfmánanns í Ramallah. Að kvöldi þriðja dags munum við koma hingað til Jerúsalem á ný.

Við erum búin að setja inn nokkrar myndir frá deginum í dag. Sjá myndaalbúmið hægra megin á síðunni. Fleiri myndir koma inn á næstu dögum. 
Látum mynd af okkur ásamt Pálínu fylgja með hér í lokin.

P2280030


Næsta síða »

Höfundur

Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu
Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir blogga um ferð sína á vegum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands til Palestínu 27. febrúar - 7. mars 2009.

Verkefnið er styrkt af Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins (European Commission Humanitarian Aid department).

En tilgangur ferðarinnar er að kynna sér aðstæður ungmenna þar ytra. Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Einnig bendum við á vef URKÍ, www.urki.is þar má finna upplýsingar um starf Ungmennahreyfingarinnar.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband