Heimsókn til Hebron

Sæl á ný

Við eyddum deginum í dag í borginni Hebron, en Hebron er stærsta borgin í Palestínu en íbúarnir eru um 750 þúsund.

Ferðin til Hebron tók um eina klukkustund en við höfum sennilega aldrei minnst á það að við förum allra okkar ferða á tveimur bílum frá Alþjóða Rauðakrossinum, 10 manna Land Cruiser og öðrum 8 manna Renault.  Við, unga fólkið, erum yfirleit í Land Cruisernum ásamt Yahia, sem er bílstjórinn okkar, og dönskum kvikmyndatökumanni sem heitir Henrik.
Toyota Land Cruiser

Þegar við vorum komin til Hebron var tekið á móti okkur í húsnæði Palestínska hálfmánans í Hebron en formaður deildarinnar bauð okkur velkomin. Að því loknu tók við Catherine sem er bresk kona sem starfar fyrir Alþjóða Rauða krossinn á svæðinu, hún fór yfir aðstæður í Hebron og var erindi hennar mjög fróðleg.

Í Palestínu er mikið um svo kallaða settlers eða landnema og byggja þeir svokölluð settlements eða landnemahverfi. Árið 1968 voru 7 landnemahverfi í Hebron og hefur þeim fjölgað á síðan.
Borginni hefur nú verið skipt í tvennt H1 (80%) undir stjórn Ísralesmanna og H2 (20%) undir stjórn Palestínumanna en er undir svokölluðu öryggiseftirliti Ísraelsmanna. Frá og með árinu 1983 hafa lokanir í borginni verið tíðar en samkvæmt upplýsingum frá OCHA hafa Ísraelsmenn komið upp 76 lokunum í borginni, þar þekkjast þó einnig "flying check-points" sem geta birst hvar sem er, hvenær sem eru og því eru þær ekki inn í tölunni.  Lokanirnar eru götur eða svæði með "check-point" á hvorum enda. Fæðingar eru tíðar við lokanir enda ófrískar konur stoppaðar líkt og aðrir.
Á Bab Al Baladye Square var árið 1999 stór útimarkaður, margar búðir og mikil stemmning en frá og með árinu 2006 er þar aðeins autt svæði vegna lokana.
Catherine sagði okkar að Palestínumenn í borginni verða fyrir miklu, daglegu ofbeldi af hendi landnemanna. Ofbeldið er m.a. fólgið í grjótkasti, eyðileggingu, líkamlegu og andlegu ofbeldi. Dæmi eru um að landnemarnir láti til skara skríða og ráðist á hóp fólks sem fylgir líkkistu frá kirkju til grafar.
Árið 1983 var strætó- og leigubílakerfi borgarinnar loka. Lokað hefur verið fyrir umferð Palestínumanna í mörgum götum og frá og með árinu 2002 hefur þeim ekki verið heimilað keyra í Austurhluta gamla bæjarins.
Catherine fór yfir það hversvegna fólk þorir ekki að hringja á sjúkrabíl ef eitthvað kemur uppá. Rauði hálfmáninn sér um sjúkrabílana en þeir þurfa að fá leyfi áður en þeir fara inn á ákveðin svæði og því verða boðleiðirnar langar. Fólkið flytur því frekar slasaða í kerrum, á hestbaki eða með öðrum leiðum oft með slæmum afleiðingum.
Á undanförnum árum hefur efnahagsástand svæðisins versnað enda fáar búðir eftir en á árunum 2002-2003 var dagar með útgönubanni í borginni samtals 523.
Aðeins 14% íbúa hafa full störf en í borginni er atvinnuleysi 20%.

Þegar Catherine hafði lokið máli sínu tók skólastýra Qurtuba skólans til máls.  Skólinn hefur starfað frá árinu 1971 en hann er á milli 3 landnemahverfa.
Gata liggur milli skólans og eins landnemahverfisins en nemendum og starfsmönnum skólans hefur verið óheimilt að ganga á þeirri götu síðustu 10-11 ár og geta þeir því ekki notað tröppurnar að aðalinngangi skólans - en landnemar hafa lokað tröppunum með gaddavír.
Mikil fækkun hefur orðið á nemendum í skólanum en 2/3 nemenda hafa þurft á skipta um skóla vegna þess hve margar lokanir hafa verið settar upp á leið þeirra í skólann. Sökum lokana þurfa börnin m.a. að ganga yfir grafir og legsteina á leið sinni í skólann þurfa börnin. Þau þurfa oft að eyða löngum tíma við lokanir og málmleitarhlið. Ekki er leitað á fólki á þegar farið er frá H2 yfir á H1 enn oft er löng bið á þeirri leið, þ.e. oft líða nokkrar klukkustundir frá því að einstaklingur kemur að hliðinu þar til opnað er fyrir honum. Brugðið hefur verið á það ráð að byrja skólann mjög snemma og enda fyrr til að forðast það að börnin séu á leið í og úr skóla á sama tíma og börn landnemanna.
Qurtuba skólanum er boðið upp á sálrænan stuðning í samvinnu við Palestínska Rauða hálfmánann með stuðningi frá Rauða krossi Íslands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands.

Að þessari umfjöllun lokinni tókum við stefnuna í gamla bæinn þar sem við sáum þær búðir og útimarkaði sem enn eru gangandi. Við notuðum tækifærið og keyptum örlitla minjagripi á svæðinu en eftir að hafa gengið um miðbæinn og séð hvernig þurft hefur að girða yfir göngugötur til að koma í veg fyrir grjótkast úr blokkum landnemanna héldum við á fund með verslunarmönnum í húsnæði sálræna stuðningsins Hebron.
Fundinn sátu 3 verslunarmenn en allir hafa þeir misst viðskipti með einum eða öðrum hætti sökum lokana en sem dæmi m á nefna að götu með 1200 búðum hefur verið lokað. Að sögn þeirra eru verslunarsvæðin öll mjög lítil. Sögðust þeir verða varir við að Ísraelsmenn reyni að sjá til þess að ferðamenn kaupi ekki vörur af Palestínumönnum.
Þeir nefndu það að mjög langan tíma tekur að komast stuttar vegalengdir, dæmi eru um að til að komast leið sem áður nam nokkur hundruðum metum þurfti að fara margra kílómetra leið  vegna lokana en verðirnir taki sér einnig allt að eina og hálfa klukkustund í það að skoða skilríki einstakra aðila.

Eftir að spjallinu við verslunarmennina lauk var hópnum skipt upp til að heimsækja tvo skóla, við heimsóttum sama skólann ásamt Sólveigu og vinum okkar frá Ítalíu. Skólastjórinn tók á móti okkur við komuna og fór hann yfir helstu atriðin er við koma skólanum. En skólanum er boðið upp á sálrænan stuðning fyrir nemendur í 5. og 6. bekk. Hófst verkefnið í skólanum í október 2008.
Kennarar og foreldrar taka strax eftir breytingu og segja börnin jákvæðari og bjartsýnni. Verkefnið hjálparð börnunum að hleypa tilfinningum sínum út, losa um reiði og fl.
Skólinn er mjög nálægt landnemahverfi og skólastjórinn sagði okkur að nemendurnir væru mjög hræddir við landnemana og börn þeirra. Nemendurnir verða fyrir áreiti af þeirra hálfu á leið í skólann sem og eftir skóla og kvöldin. Víða eru klósett aðskilin íbúðarhúsunum og verða börnin oft fyrir áreiti á leiðinni á klósettið og hafa nokkur lent í því að vera numin á brott af landnemum. Landnemarnir hafa einnig ráðist á skólann með grjótkasti.
Gunnlaugur starfar í grunnskóla á Íslandi og því var áhugavert að sjá muninn á aðstæðum en skólinn virðst vinna mjög gott starf þrátt fyrir mikil þrengsli.
IMG 1944

Eftir að hafa rætt við skólastjórann litum við inn þar sem strákahópur var að vinna að sálræna stuðnings verkefninu ásamt 2 leiðbeinendum. Vegna þess hve skólinn er lítill hafa nokkrir nágrannar sem eiga laust pláss í húsum sínum lánað rými fyrir kennsluna. Í dag var verið að ræða um hræðslu og viðbrögð við hræðslu. Drengirnir sögðu frá hræðulegu atviki og lýstu því hvernig þeim leið og hvernig þeir brugðust við.

Að skólaheimsókninni lokinni sóttum við fund með borgaryfirvöldum sem vinna að uppbyggingu borgarinnar, en víða hafa verið unnin skemmdarverk á húsum sem verið er að laga. Við munum fjalla nánar um þann fund síðar.

Að þessu loknu fengum við okkur hádegismat en þá var klukkan orðin 16!
Á leiðinni til Jerúsalem  heimsóttum við verksmiðju í Hebron sem vinnu með gler og keramik og selur ýmsa fallega muni.

Lengra verður þetta ekki í bili, enda orðið framorðið hjá okkur og enn einn langur dagur framundan. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu
Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir blogga um ferð sína á vegum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands til Palestínu 27. febrúar - 7. mars 2009.

Verkefnið er styrkt af Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins (European Commission Humanitarian Aid department).

En tilgangur ferðarinnar er að kynna sér aðstæður ungmenna þar ytra. Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Einnig bendum við á vef URKÍ, www.urki.is þar má finna upplýsingar um starf Ungmennahreyfingarinnar.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband