Meira frá Qalqilya

Komið sæl!

Nú erum við enn einu sinni sest fyrir framan tölvuna að loknum löngum degi og ætlum að renna yfir það helsa sem gerst hefur í dag. Við tókum daginn snemma að vanda og vorum lögð af stað með allt okkar hafurtask frá Ramallah kl. rúmlega sjö í morgun en þá var ferðinni heitið til Qalqilya, annan daginn í röð.

Þegar til Qalqilya var komið tók við fundur með stjórnendum menntamálaráðuneytis Palestínu. Youssef, yfirmaður ráðuneytisins, fór yfir helstu atriði menntakerfi landsins og hvernig kennararnir þeirra þjást vegna ástandsins í landinu. Hann fór einnig yfir samvinnu menntamálaráðuneytisins og Palestínska Rauða hálfmánans og Rauða kross Íslands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands. Sagði hann að samstarfið gengi mjög vel og hafi skilað miklum árangri en verkefni okkar sem byggir á sálrænum stuðningi er nú komið í 53 skóla. Aukin einbeiting, betri árangur í námi, markvissari kennsla og bætt samskipti er meðal þess sem Youssef talaði um sem atriði sem sálræni stuðningurinn hefur haft í för með sér. Hann sagði okkur einnig að í Palestínu er 72 skólar, 10 einkaskólar, 50 leikskólar og 1600 kennarar.

Eftir fundinn í ráðuneytinu var komið að því að skipta okkur niður í hópa til að heimsækja grunnskóla á svæðinu og þar með kynna okkur verkefnið um sálræna stuðninginn sem að mestu leyti fer fram inni í skólunum sjálfum. Það vill hinsvegar þannig til að kennarar hér í landi hafa boðað til verkfallsaðgerða og hafa verið í verkfalli þá tvo virku daga sem af eru þessari viku. Menntamálaráðuneytið hefur því miður ekki haft pening til að greiða kennurunum laun undanfarið og því hafa þeir brugðið á þetta ráð. Börnunum var hinsvegar boðið að koma og sækja sálræna stuðninginn eins og um venjulegan skóaldag væri að ræða og komu börn í 2 af þeim 3 skólum sem við heimsóttu. Við fórum í sitthvorn skólann en báðir eru þeir staðsettir í Qalqilya.

Skólinn sem Gunnlaugur heimsótti telur um 700 nemendur í 4.-7. bekk. Við skólann starfa 30 kennarar. Heimsóknin í skólann hófst með spjalli við skólastjórann, nokkra kennara og Margaret sem er yfir sálræna stuðningnum í skólanum en 120 börn úr 5. bekk skólans taka þátt í verkefninu undir handleiðslu 3 leiðbeinenda. Verkefnið fer fram í 6 hópum og sér 1 kennari um 2 hópa.
Kennararnir nefndu bætta hegðun, minni slagsmál og aukna kurteisi sem dæmi um það sem verkefnið hefur haft í för með sér. Auk þess nefndu þeir að börnunum gengi betur í náminu en áður, þeir sögðu samskiptin hafa batnað.
Verkefnið saman stendur af 20 vinnuhópum innan kennslustofunnar. Boðið er upp á 10 vinnuhópa á hvorri önn skólaársins. Hver vinnuhópur hefur sitt markmið, t.d. að byggja traust og efla hópinn, ræða um ofbeldi og ótta, vinna með samskipti innan og utan skólans og svo framvegis. Hver vinnuhópur stendur í 1 til 1 og 1/2 klst. á dag.
Að loknu spjalli á skrifstofu skólastjórans fórum við og litum inn hjá drengjahóp sem komið hafði í skólann til að sækja verkefnið. Hópurinn var að borða nesti þegar við komum og fengum við okkur bita með þeim. Síðan fórum við í nokkra leiki saman. Að því loknu færði Gunnlaugur skólanum vaxliti frá Unni Hjaltadóttur skólasafnskennara í Hlíðaskóla.
IMG 1836
Margaret tekur við gjöfinni sem hún sagði að myndi koma að góðum notum.

Engin börn sóttu skólann sem Kristín heimsótti. Hún sat þó fund með skólastjóranum, en 80 börn úr skólanum sækja sálrænan stuðning.

Verkefninu er ætlað að láta börnunum líða betur en það að vera umlukin stríði, vera lokuð i eigin borg og lifa við sífelldan ótta hefur augljóslega djúp sálræn áhrif á þau. Þegar þau hittast fara þau oft í leiki sem ætlað er að hleypa út tilfinningum þeirra en í leikjunum hefur komið fram að börnin eru oft reið og ofbeldisfull.

Eftir að hóparnir höfðu heimsótt skólana var okkur öllum skipt upp í nýja hópa til að heimsækja fjölskyldurnar þrjár. Gunnlaugur og Sólveig heimsóttu sömu fjölskyldu og í gær, ásamt Thoby frá Danmörku og  Jósef og Oliver frá Frakklandi. Kristín heimsótti hinsvegar aðra fjölskyldu ásamt Semine frá Danmörku. Við munum segja nánar frá heimsóknum síðar en nú er orðið ansi framorðið hér hjá okkur við ætlum að reyna að setja inn sem flestar myndir fyrir svefninn.

Eftir heimsóknir til fjölskyldnanna má segja að við höfum falið okkur í dýragarði borgarinnar en í dag komu her Ísraelsmanna inn í borgina og skutu þar nokkrum skotum. Dýragarðurinn í borginni er talinn nokkuð öruggur og því vorum við aldrei í neinni hættu. Alþjóða Rauða krossinn fylgdist með ferðum okkar og sá til þess að við kæmumst auðveldlega út úr borginni eftir heimsókn okkar í dýragarðinn. En garðurinn er mjög fallegur og þar eru fjölmörg dýr. Einnig eru þar þrjú ólík söfn.

Ferðin frá Qalqilya til Jerúsalem, við fórum í gegnum 3 "check-point" en þurfum aðeins að sýna vegabréfin okkar í einu þeirra - en Rauði krossinn nýtur trausts hér og þurfa þeir sem ferðast undir þeirra merkjum yfirleitt ekki að óttast um að vera látnir dúsa lengi á slíkum skoðunarstöðvum.

Nú er þessi dagur á enda runninn og lengra verður þetta ekki í kvöld. En við bendum á að í dag birtist viðtal við okkur í Morgunblaðinu á bls. 17. Við leyfum því einnig að fljóta með hér að neðan. Í dag birtist einnig grein um heimsókn okkar til Palestínu í þekktu arabísku blaði sem kallast Jerúsalem. Sú grein er á arabísku, en við munum reyna að birta hana hér síðar.

 

mbl

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu
Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir blogga um ferð sína á vegum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands til Palestínu 27. febrúar - 7. mars 2009.

Verkefnið er styrkt af Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins (European Commission Humanitarian Aid department).

En tilgangur ferðarinnar er að kynna sér aðstæður ungmenna þar ytra. Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Einnig bendum við á vef URKÍ, www.urki.is þar má finna upplýsingar um starf Ungmennahreyfingarinnar.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband