Mánudagur í Qalaqilya

Við ætlum að byrja færsluna í dag á smá viðbótum við fyrri blogg.
Nú höfum við fengið allt sem okkur vantaði; taskan hennar Sólveigar skilaði sér í gær og Frakkarnir tveir sem ekki komu á réttum tíma komu á hótelið í Jerúsalem uppúr miðnætti aðfaranótt sunnudagsins eftir 7 klst. yfirheyrslur á flugvellinum.

Dagurinn í dag hefur verið sá viðburðaríkasti hingað til. Hann hófst kl. 05:00 með sturtu og tilheyrandi líkamssnyrtingum. Á slaginu kl. 06.31 hófst ferð okkar til Qalaqilya en akstur þangað tekur um eina og hálfa klukkustund. Á leiðinni fórum við um tvo "check-point" sem eru skoðunarstöðvar Ísraelsmanna og hefta mjög frelsi Palestínumanna. Þeir gerðu engar athugasemdir við ferðir okkar og komumst við áfram án þess að sýna vegabréf eða önnur skilríki.
Þegar til Qalaqilya  var komið fórum við beint á fund með sýslumanni (governor) Qalaqilya svæðisins en borgin Qalaqilya er sú þéttbýlasta á Vesturbakkanum (þar búa 50þúsund íbúar á 4,2 ferkílómetra svæði). Á fundinum fór sýslumaðurinn yfir ástandið í borginni og helstu vandamál sem íbúar og stjórnvöld á svæðinu standa frammi fyrir. Hann fór m.a. yfir hvernig veggurinn milli Ísraels og Vesturbakkans liggur og kynnti okkur áform Ísraelsmanna um áframhaldandi uppbyggingu hans með tilheyrandi landsskerðingu á kostnað Palestínumanna. Fundurinn var mjög fróðlegur og varpaði nokkru ljósi á aðstæður íbúanna.

Því næst tók við sambærilegur fundur með borgarstjóra Qalaqilya en hann fór nánar yfir aðstæður ungs fólks í borginni. Í Qalaqilya er enginn almenningsgarður en þar er þó einn dýragarður. Er það eini staðurinn sem fjölskyldur geta sótt. En sökum landleysis er ekki hægt að byggja upp fleiri slíka garða. Ekkert æskulýðsstarf er í borginni og lítið við að vera fyrir ungt fólk, því er dýragarðurinn einnig vel sóttur af yngri kynslóðinni.

Að fundahaldi loknu var komið að því að skoða áðurnefndan múr sem skilur Vesturbakkann að frá Ísrael. Þar sáum við akur sem var á kafi í vatni en veggurinn hindrar eðlilegt flæði vatnsins. Þar hittum við einnig eiganda landsvæðisins en hann sagði okkur að við byggingu veggjarins árið 2005 hafi mjög stór hluti lands hans lent hinu megin múrsins og því getur hann ekki nýtt landsvæði sitt sem skildi.

Að þessu loknu var klukkan orðin hálf ellefu og tímabært að skipta hópnum niður á fjölskyldur. Upphaflega áttu þátttakendur frá hverju landi að fá eina fjölskyldu en á síðustu stundu hætti ein fjölskyldan við og því voru þær þrjár í stað fjögurra. Hópnum var því skipt í þrjá minni hópa. Við Íslendingarnir ásamt Jósef frá Frakklandi heimsóttum Palestínska fjölskyldu sem samanstendur af hjónum, 4 sonum þeirra og einni dóttur. Um kl. ellefu vorum við komin á heimili fjölskyldunnar sem var lítil, en snotur tveggja svefnherbergja íbúð í fjölbýlishúsi. Börnin eru á aldrinum 4 - 18 ára, en ellefu ára sonur hjónanna sæki sálrænan stuðning hjá Palestínska Rauða hálfmánanum í Qalaqilya  en það verkefni er stutt af íslenska, danska, franska og ítalska Rauða krossinum og er ástæða fyrir heimsókn okkar hingað. Börnin 5 sofa í sama herbergi en hjónin hafa eigið svefnherbergi. Við ræddum við þau ýmis mál, m.a. stöðu fjölskyldunnar, upplifun þeirra á ástandinu, skoðun þeirra á sálrænum stuðningi Rauða hálfmánans og fleira. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er fjölskyldan æðrulaus og mjög bjartsýn en aðspurð sögðust þau hvergi vilja búa annarsstaðar en í Palestínu - það eina sem þau biðja um er frelsi til að lifa sínu lífi án afskipta Ísraelsmanna.
Hjónin sögðu að ellefu ára sonur þeirra hafi tekið miklum framförum eftir að hann tók að sækja sálrænan stuðning fyrir stríðshrjáð börn. Þau sögðu hugsanir hans mun jákvæðar og að hann væri á heildina litið bjartsýnni á framtíðina en áður.
Heimilisfaðirinn er án atvinnu og því hefur fjölskyldan litla peninga á milli handanna en mikið atvinnuleysi er í borginni. Ástæður þess má oftar en ekki rekja til þess hve mikið af landssvæðum Palestínumanna hefur lent Ísraelsmegin við múrinn og einnig til þeirrar staðreyndar að sökum heftra samgangna og mikillar umferðastjórnunar inn og út úr borginni geta íbúar Qalaqilya ekki sótt vinnu í öðrum borgum Palestínu.
Fjölskyldan bauð okkur upp á ekta mat að hætti Palestínumanna, kjúkling, hrísgrjón, fisk, asíur og að sjálfsögðu brauðið þeirra sem við Íslendingarnir hámum í okkur með hummus eða hverju öðru sem býðst!
Samverustund dagsins með fjölskyldunni stóð í 4 klst. og fór að mestu í að kynnast og ræða um þeirra aðstæður. Við munum einnig hitta fjölskylduna á morgun, þriðjudag og n.k. föstudag.

Áður en haldið var aftur til Ramallah hittum við sjálfboðliða Palestínska Rauða hálfmánans í Qalaqilya í húsnæði sem verkefnið sálrænn stuðningur hefur yfir að ráða. Þau fóru m.a. yfir þeirra verkefni innan hreyfingarinnar og fleira. Þau fengu einnig stutta kynningu á verkefnum dönsku og ítölsku ungmennahreyfingarinnar. Að því loknu tók við eins og hálfs klukkustundar ferðalag til Ramallah.

Þegar þangað var komið tók við stutt viðtal vegna heimildarmyndarinnar sem gerð er um ferðina og að því loknu veittum við blaðamanni Morgunblaðsins viðtal gegnum síma. Viðtalið mun að öllum líkindum birtast í Morgunblaðinu á morgun svo við hvetjum ykkur til að fylgjast með.

Klukkan 19 tók við formleg móttaka Palestínska Rauða hálfmánans í sal þeirra á 8. hæð hússins en þar buðu þeir upp meira af hefðbundnum Palestínskum mat sem að sjálfsögðu innihélt brauð og hummus við mikinn fögnuð okkar.

Eins og sjá má hefur þetta verið langur og viðburðaríkur dagur. Nú er klukkan orðin 20 mínútur í ellefu og því tímabært að búa sig í háttin. Við munum setja inn sem mest af myndum sem allra fyrst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu
Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga í Palestínu

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir blogga um ferð sína á vegum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands til Palestínu 27. febrúar - 7. mars 2009.

Verkefnið er styrkt af Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins (European Commission Humanitarian Aid department).

En tilgangur ferðarinnar er að kynna sér aðstæður ungmenna þar ytra. Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Einnig bendum við á vef URKÍ, www.urki.is þar má finna upplýsingar um starf Ungmennahreyfingarinnar.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband